Þórðarhellir

Ósk
Séð

Vestfirðir

Sjá á korti

2066 skoðað

Hellirinn er 10,5 metrar á breidd og 12 metrar á lengd. Mesta hæð hans er 3,10 metrar, hann er hæstur til suðausturs en lækkar mjög til jaðranna. Mynni Þórðarhellis er mjög lágt og frekar mjótt og verður að skríða grjótskriðu niður á við til að komast inn í hellinn. Leifar af hleðslu, hægra megin þegar komið er inn í hellinn munu enn hafa verið sýnilegar í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Nú sjást engin óræk merki um mannvist í hellinum.


Sagnir herma að Þórðarhellir sé gamalt útilegubæli. Tvennum sögum fer af Þórði þeim sem hellirinn er kenndur við. Telja sumir að hann sé kenndur við Þórð galdramann Guðbrandsson, bónda á Munaðarnesi, sem brenndur var fyrir galdra 1654. Þjóðsaga segir að hann hafi sloppið úr brennunni og leitað til bóndans í Litlu-Ávík sem hafi leynt honum í hellinum.

Önnur munnmæli og öllu trúlegri herma að hellirinn dragi nafn af Þórði sakamanni sem leyndist í hellinum um hríð. Ástir tókust með honum og heimasætunni á Litlu-Ávík og flutti hún í hellinn til hans og ól honum barn. Bóndinn í Litlu-Ávík brást ókvæða við þegar hann frétti hvar dóttir hans hélt til og fór með lið manna í hellinn og nam stúlkuna og barnið á brott. Veittust mennirnir að Þórði en hann varðist þeim ofan af klettasyllu í Hyrnunni og kastaði í þá grjóti. Sagt var að bóndinn hefði látist af áverkum sem hann hlaut af völdum Þórðar.

Heimild: Sjá hér

Þórðarhellir


Staðir nálægt mér

© Anton Stefánsson | antonstefans@gmail.com

Vefsíðan notast við kökur